10 ráð fyrir fyrsta pole fitness tímann þinn
Við spurðum nemendur og kennara í Eríal Pole hvaða ráð þau myndu gefa einhverjum sem væri á leiðinni á fyrsta pole fitness tímann sinn. Hér eru svörin þeirra og vonandi getur þetta hjálpað einhverjum sem er að byrja.
- Mörgum vinkonum mínum langar að prófa pole fitness en ég hef heyrt einum of oft “ég vil koma mér í betra form áður en ég byrja í pole”. Pole fitness snýst um að læra að elska sjálfa sig og þetta er líkamsrækt svo það er engin þörf á að koma sér í form áður en maður byrjar.
- Komdu með vatnsbrùsa og drekktu nòg af vatni ì tìmanum. Maður gleymir sér stundum ì sùludansgleðinni og þađ er mikilvægt ađ drekka nòg.
- Ekki bera þig saman við aðra iðkendur eða þjálfara. Sumir hafa bakgrunn í fimleikum, ballett, dansi eða annarri íþrótt og aðrir gætu verið að taka námskeiðið í annað eða þriðja skiptið. Það tekur tíma að læra og venja líkamann en það gerist á endanum.
- Láttu það ekki stoppa þig þó svo að þú sért ósátt við líkamann þinn. Pole fitness kennir þér að sættast við þig eins og þú ert og áður en þú veist af ferðu að elska líkamann þinn fyrir það hvers hann er megnugur. Það sem hefur hjálpað mér að ná sáttum við appelsínuhúðina mína er að mæta á æfingu og sjá að ég er ekki eina manneskjan í heiminum með appelsínuhúð. Það er náttúrlegt fyrir konur að fá appelsínuhúð en einhverjum tókst að koma því í hausinn á okkur að það er ekki fallegt einungis í þeim tilgangi að græða.
- Ekki gefast upp strax, þótt þér finnist þú ekki geta neitt. Haltu þetta út í að minnsta þangað til námskeiðið endar. Oft er líka mikill munur þegar maður tekur námskeið í annað skiptið.
- Ég gerði þau mistök að raka á mér lappirnar og bera á mig body lotion nokkrum klukkutímum fyrir fyrsta tímann minn. Þegar farið var að líða aðeins á tímann og ég var byrjuð að svitna þá fór kremið að svitna líka og virkaði eins og olía sem gerði það að verkum að ég náði engu gripi á súlunni. Í þokkabót var húðin ennþá viðkvæm eftir raksturinn sem olli því að hún sveið líka. Semsagt! Ekki raka þig og bera á þig krem rétt fyrir tímann. Það pælir hvort sem er enginn í því hvort maður sé rökuð eða ekki.
- Vont en það venst! Marblettirnir eru eðlilegir og ég var eins og dalmatíu hundur eftir fyrstu tímana. Þetta á eftir að vera vont og þetta á eftir að vera erfitt en þér á eftir að líða eins og ofurkonu þegar þú nærð trixunum.
- Það sem stoppaði mig frá því að byrja frekar lengi var að ég var alltaf að bíða eftir því að einhver vildi koma með mér. Svo þegar ég dreif mig loksins af stað bara ein var það ekkert mál. Allir í tímanum voru þarna til að vinna að sömu markmiðum og það myndaðist strax svona lítið samfélag eða vinahópur.
- Í fyrsta pole fitness tímanum mínum þá mætti ég í buxum en ekki stuttbuxum. Hafði ekki hugmynd um að ég þyrfti að nota húðina til að ná gripi á súlunni. Ef þú ert feimin við að vera í stuttbuxum þá mæli ég með því að vera í stuttbuxum og leggings utan yfir. Oft er ekki nauðsynlegt að vera í stuttbuxum allan tímann og maður getur þá bara skellt sér úr buxunum þegar það er verið að gera æfingar þar sem þarf að nota fótleggina til að ná gripi. Á veturnar þegar það er kalt í veðri þá hjálpar það líka til að hita upp að byrja tímann í síðum buxum utan yfir. Og ef það lætur einhverjum líða betur þá finnst flestum svolítið óþægilegt að vera svona fáklædd til að byrja með en þetta venst ótrúlega hratt og á endanum fær maður betra sjálfstraust fyrir vikið.
- Ekki vera feimin við að prófa gripefni. Bæði of þurr eða sveitt húð getur haft slæm áhrif á gripið sem getur eyðilagt fyrir manni æfinguna. Björtu hliðarnar eru þær að það eru til margar gerðir af gripefnum sem henta fyrir mismunandi húðgerðir og aðstæður.
Voru einhver af þessum ráðum sem komu á óvart eða hefðu komið sér vel að vita áður en þú fórst í fyrsta pole fitness tímann þinn?
Ertu með fleiri góð ráð sem eru ekki á listanum?
Láttu okkur vita í kommentunum! :)
Leave A Comment
You must be logged in to post a comment.