Sara Óskarsdóttir – Nemandi í lyru
Ég heiti Sara og er 36 ára. Ég starfa sem vefstjóri hjá ferðaskrifstofunni VITA og á 2 börn með Hermanni Fannari Valgarðssyni en hann var bráðkvaddur árið 2011. Svo á ég tvö stjúpbörn með sambýlismanni mínum sem er einnig vefstjóri og tónlistarmaður.
Ég hef gaman af öllu sem tengist jaðaríþróttum og á veturna reyni ég að fara sem mest á snjóbretti. Þegar veður leyfir finnst mér mjög gaman að nota longboardið mitt. Ég reyndi við brimbrettið og keypti mér allar græjur til að surfa við Íslandsstrendur. Draumurinn var að surfa um allan heim en ég komst fljótt að því að ég er frekar sjóhrædd og finnst betra að hafa fast land undir fótum.
Helst vil ég nýta frítímann í ferðalög, en væri til í að starfa við mannúðarmál og hafa meiri tíma til að sinna sjálfboðastarfi en eins og er hjálpa ég fólki að komast í draumafríið sitt.
Lyra
Ég byrjaði að æfa Lyru 2015. Þjálfarinn minn og ég erum að vinna á sama stað og hún hvatti mig til að prófa. Ég var nýflutt í hverfið og fannst þægilegt hvað húsnæðið var nálægt.
Lyra er frábær hreyfing og Eríal Pole vinalegur og þægilegur staður til að æfa á. Mér finnst frábært að læra alltaf eitthvað nýtt eða bæta mig í einhverri stöðu og mig langar til að bæta mig í liðleika. Það eru svo margar flottar splitt stöður sem væri auðveldara að gera ef ég væri aðeins liðugri. Ég er ekki með mjög sterk hné en þjálfararnir gefa manni alltaf nokkra möguleika á útfærslum.
Mér finnst mjög hvetjandi að taka þátt í nemendasýningum. Þá reynir á að setja saman rútínu, nýta tónlistina og gera nokkur trikk í einu. Ég notaði einmitt lag sem Óli maðurinn minn samdi í seinustu rútínu sem ég gerði og það var mjög gaman og persónulegt.
-Sara Óskarsdóttir
Ljósmyndari: Eva Rut Hjaltadóttir